Njála, 036

From WikiSaga
Revision as of 09:36, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 36== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 36== Gunnar reið til þings. En áður hann reið heiman mælti hann til Hallgerð...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 36

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 36

Gunnar reið til þings. En áður hann reið heiman mælti hann til Hallgerðar: „Ver þú dæl meðan eg er í brautu og sýn af þér önga fárskapi þar sem við vini mína er um að eiga.“

„Tröll hafi þína vini,“ segir hún.

Gunnar ríður til þings og sá að eigi var gott orðum við hana að koma. Njáll reið til þings og synir hans allir.

Nú er frá því að segja hvað heima er tíðinda. Þeir áttu skóg saman, Njáll og Gunnar, í Rauðaskriðum. Þeir höfðu eigi skipt skóginum en hvor var vanur að höggva sem þurfti og taldi hvorgi á annan of það.

Kolur hét verkstjóri Hallgerðar. Hann hafði verið með henni lengi og var hið mesta illmenni.

Svartur hét maður. Hann var húskarl Njáls og Bergþóru. Þeim líkaði vel við hann. Bergþóra mælti við hann að hann skyldi fara í Rauðaskriður og höggva skóg „en eg mun fá til menn að draga heim viðinn.“

Hann kveðst vinna mundu það sem hún leggur fyrir hann. Hann fór upp í Rauðaskriður og skyldi þar vera viku.

Snauðir menn komu til Hlíðarenda austan frá Markarfljóti og sögðu að Svartur hafði verið í Rauðaskriðum og höggvið skóg og gert mikið að.

„Svo mun Bergþóra til ætla að ræna mig mörgu,“ segir Hallgerður, „en því skal eg ráða að hann höggvi eigi oftar.“

Rannveig heyrði, móðir Gunnars, og mælti: „Þó hafa húsfreyjur verið góðar þó að eigi hafi staðið í mannráðum.“

Nú leið af nóttin og of morguninn kom hún að máli við Kol og mælti: „Verk hefi eg hugað þér,“ segir hún og fékk honum í hendur vopn og mælti: „Farðu í Rauðaskriður. Þar munt þú finna Svart.“

„Hvað skal eg honum?“ segir hann.

„Spyr þú að því þar er þú ert hið mesta illmenni? Vega skalt þú hann,“ segir hún.

„Gert mun eg það geta,“ segir hann, „en það er líkara að eg gefi mig við.“

„Vex þér hvetvetna í augu,“ segir hún, „og fer þér illa þar sem eg hefi mælt eftir þér hvern hlut. Mun eg fá til annan mann að gera þetta ef þú þorir eigi.“

Hann tók öxina og var reiður mjög og tekur hest er Gunnar átti og ríður nú þar til er hann kom austur að Markarfljóti. Hann steig þar af baki og beið í skóginum þar til er þeir höfðu borið ofan viðinn og Svartur var einn eftir.

Hleypur Kolur þá að honum og mælti: „Fleiri munu kunna að höggva stórt en þú einn“ og setti öxina í höfuð honum og hjó hann banahögg og ríður heim síðan og segir Hallgerði vígið.

Hún mælti: „Svo skal eg þig varðveita að þig skal eigi saka.“ 

„Vera má það,“ segir hann, „en hinn veg dreymdi mig þó áður en eg vó vígið.“

Nú koma þeir upp í skóginn og finna Svart veginn og flytja hann heim.

Hallgerður sendi Gunnari mann til þings að segja honum vígið. Gunnar hallmælti ekki Hallgerði fyrst fyrir sendimanninum og vissu menn eigi fyrst hvort honum þótti vel eða illa. Litlu síðar stóð hann upp og bað menn sína ganga með sér. Þeir gerðu svo og fóru til búðar Njáls. Gunnar sendi mann eftir Njáli og bað hann koma út. Njáll gekk út þegar og gengu þeir Gunnar á tal.

Gunnar mælti: „Víg hefi eg að segja þér og hefir valdið kona mín og verkstjóri minn Kolur en fyrir hefir orðið Svartur húskarl þinn.“

Njáll þagði meðan hann sagði honum alla sögu.

Þá mælti Njáll: „Þurfa munt þú að láta eigi hana öllu fram koma.“

Gunnar mælti: „Sjálfur skalt þú dæma.“

Njáll mælti: „Erfitt mun þér verða að bæta öll slys Hallgerðar og mun annars staðar meira slóða draga en hér er við eigum hlut að og mun hér þó mikið á vanta að vel sé og munum við þess þurfa að muna það að við höfum vel við mælst. Og væntir mig að þér fari vel en þó munt þú verða mjög að þreyttur.“

Njáll tók sjálfdæmi af Gunnari og mælti: „Ekki mun eg halda máli þessu til kapps. Þú skalt gjalda tólf aura silfurs. En það vil eg til skilja þó að nokkuð komi það úr vorum garði er þér eigið um að gera að þér stillið eigi verr gerðinni.“

Gunnar greiddi af hendi féið vel og reið heim síðan.

Njáll kom heim af þingi og synir hans.

Bergþóra sá féið og mælti: „Vel er þessu í hóf stillt en jafnmikið fé skal koma fyrir Kol er stundir líða.“

Gunnar kom heim af þingi og taldi á Hallgerði. Hún kvað betri menn liggja óbætta margstaðar. Gunnar kvað hana ráða mundu tiltekjum sínum „en eg skal ráða hversu málin lúkast.“

Hallgerður hældist jafnan um víg Svarts en Bergþóru líkaði það illa.

Njáll fór upp í Þórólfsfell og synir hans að skipa þar til bús. En þann sama dag verður sá atburður þá er Bergþóra er úti að hún sér mann ríða svörtum hesti. Hún nam staðar og gekk eigi inn. Sjá maður hafði spjót í hendi og gyrður saxi. Hún spurði þenna mann að nafni.

„Atli heiti eg,“ sagði hann.

Hún spurði hvaðan hann væri.

„Eg er austfirskur maður,“ segir hann.

„Hvert skalt þú fara?“ segir hún.

„Eg er maður vistlaus,“ segir hann, „og ætlaði eg að finna Njál og Skarphéðin og vita ef þeir vildu með mér taka.“

„Hvað er þér hentast að vinna?“ segir hún.

„Eg er akurgerðarmaður og margt er mér vel hent að gera,“ segir hann, „en eigi vil eg því leyna að eg er maður skapharður og hefir jafnan hlotið um sárt að binda fyrir mér.“

„Ekki gef eg þér það að sök þótt þú sért engi bleyðimaður,“ segir hún.

Atli mælti: „Ert þú nokkurs ráðandi hér?“ segir hann.

„Eg er kona Njáls,“ segir hún, „og ræð eg eigi síður hjónum en hann.“

„Vilt þú taka við mér?“ segir hann.

„Gera mun eg þér kost á því,“ segir hún, „ef þú vilt vinna það er eg legg fyrir þig og svo þótt eg vilji senda þig til mannráða.“

„Áttu svo til varið of menn,“ segir hann, „að þú munt ekki mín að slíku þurfa.“

„Það skil eg er eg vil,“ segir hún.

„Kaupa munum við að þessu,“ sagði hann.

Þá tók hún við honum.

Njáll kom heim og synir hans og spurði Bergþóru hvað manna sjá væri.

„Hann er húskarl þinn,“ segir hún, „og tók eg við honum og kveðst hann vera maður óhandlatur.“

„Ærið mun hann stórvirkur,“ segir Njáll, „en eigi veit eg hvort hann er svo góðvirkur.“

Skarphéðinn var vel til Atla.

Njáll ríður til þings of sumarið og synir hans. Gunnar var á þingi. Njáll tók upp fésjóð.

Skarphéðinn spyr: „Hvað fé er það, faðir?“

„Hér er fé það er Gunnar greiddi mér fyrir heimamann vorn.“

„Koma mun þér það til nokkurs,“ sagði Skarphéðinn og glotti við.


Tilvísanir

Links