Njála, 039

From WikiSaga
Revision as of 09:36, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 39== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 39== Þórður hét maður. Hann var kallaður leysingjason. Sigtryggur hét faðir...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 39

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 39

Þórður hét maður. Hann var kallaður leysingjason. Sigtryggur hét faðir hans og hafði hann verið leysingi Ásgerðar og drukknaði hann í Markarfljóti. Var Þórður því með Njáli síðan. Hann var mikill maður og styrkur. Hann hafði fóstrað alla sonu Njáls. Hann hafði lagt hug á Guðfinnu frændkonu Njáls, Þórólfsdóttur. Hún var matselja heima þar og var þá óhraust.

Bergþóra kom að máli við Þórð leysingjason: „Þú skalt fara að drepa Brynjólf.“

„Engi er eg vígamaður,“ segir hann, „en þó mun eg gera það er þú vilt.“

„Það vil eg,“ segir hún.

Síðan fór hann upp til Hlíðarenda og lét kalla Hallgerði út og spurði hvar Brynjólfur væri.

„Hvað vilt þú honum?“ segir hún.

„Eg vil að hann segi mér hvar hann hefir hulið hræ Atla. Mér er sagt að hann hafi illa um búið.“ 

Hún vísaði til hans og kvað hann vera í Akratungu niðri.

„Gæt þú,“ segir Þórður, „að honum verði eigi það sem Atla.“

„Engi ertu vígamaður,“ segir hún, „og mun ekki undir hvort þið finnist.“

„Aldrei hefi eg séð mannsblóð og veit eg eigi hve mér bregður við“ og hleypir úr túninu og ofan til Akratungu.

Rannveig móðir Gunnars hafði heyrt á viðurtal þeirra. „Mjög frýr þú honum, Hallgerður,“ segir hún, „en eg ætla hann öruggan mann og mun það frændi finna.“

Þeir mættust á förnum vegi, Brynjólfur og Þórður.

Þórður mælti: „Ver þú þig, Brynjólfur, því að eg vil eigi níðast á þér.“

Brynjólfur reið að Þórði og hjó til hans. Hann hjó í móti með öxi og í sundur skaftið fyrir framan hendur honum Brynjólfi og hjó þegar í annað sinn til hans og kom á bringuna og gekk þegar á hol. Féll hann þá af baki og var þegar dauður. Þórður fann smalamann Hallgerðar og lýsti vígi á hönd sér og sagði hvar hann lá og bað hann segja Hallgerði vígið. Síðan reið hann til Bergþórshvols og sagði Bergþóru vígið og öðrum mönnum.

„Njót þú heill handa,“ sagði hún.

Smalamaður sagði Hallgerði vígið. Hún varð beisk við og kvað hér skyldu mikið illt af leiða ef hún mætti ráða.


Tilvísanir

Links