Njála, 047

From WikiSaga
Revision as of 09:38, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 47== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 47== Otkell hét maður. Hann var Skarfsson Hallkelssonar. Sá barðist við Grím ...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 47

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 47

Otkell hét maður. Hann var Skarfsson Hallkelssonar. Sá barðist við Grím í Grímsnesi og felldi hann af hólmi. Þeir voru bræður Hallkell og Ketilbjörn gamli. Hann bjó í Kirkjubæ. Þorgerður hét kona hans. Hún var Másdóttir Runólfssonar Naddaðarsonar hins færeyska. Otkell var auðigur að fé. Son hans hét Þorgeir. Hann var á ungum aldri og gervilegur maður.

Skammkell hét maður. Hann bjó að Hofi öðru. Hann átti vel fé. Hann var lyginn, ódæll og illur viðureignar. Hann var vinur Otkels.

Hallkell hét bróðir Otkels. Hann var mikill maður og sterkur og var þar með Otkatli. Bróðir þeirra hét Hallbjörn hvíti. Hann flutti út þræl einn er Melkólfur hét. Hann var írskur og heldur óvinsæll. Hallbjörn fór til vistar með Otkatli og svo Melkólfur þræll. Þrællinn mælti það jafnan að hann þættist sæll ef Otkell ætti hann. Hann var vel til hans og gaf honum kníf og belti og alklæðnað en þrællinn vann allt það er hann vildi. Otkell falaði þrælinn að bróður sínum. Hann kvaðst mundu gefa honum þrælinn en kvað þó verra grip í en hann ætlaði. En þegar er Otkell átti þrælinn þá vann hann aldrei verr. Otkell talaði oftlega fyrir Hallbirni að honum þætti þrællinn lítið vinna. Hann sagði Otkatli að honum var annað verr gefið.

Í þenna tíma kom hallæri mikið svo að menn skorti bæði hey og mat og gekk það um allar sveitir. Gunnar miðlaði mörgum manni hey og mat og höfðu allir er þangað komu meðan til var. Svo kom að Gunnar skorti bæði hey og mat. Þá kvaddi Gunnar Kolskegg til ferðar með sér og Þráin Sigfússon og Lamba Sigurðarson. Þeir fóru í Kirkjubæ og kölluðu Otkel út. Hann heilsar þeim.

Gunnar mælti: „Svo er háttað,“ segir Gunnar, „að eg er kominn að fala að þér hey og mat ef til væri.“

Otkell segir: „Hvorttveggja er til en hvortgi mun eg þér selja.“

„Viltu gefa mér þá og hætta til hverju eg launa þér?“

„Eigi vil eg það,“ segir Otkell.

Skammkell var tillagaillur.

Þráinn Sigfússon mælti: „Þess væri vert að vér tækjum og legðum verð í staðinn.“

Skammkell svaraði: „Aldauða eru Mosfellingar ef þér Sigfússynir skuluð ræna þá.“

„Með engi rán vil eg fara,“ segir Gunnar.

„Vilt þú kaupa þræl að mér?“ segir Otkell.

„Það spara eg eigi,“ segir Gunnar.

Síðan keypti Gunnar þrælinn og fór í braut við svo búið.

Þetta spyr Njáll og mælti: „Illa er slíkt gert að varna Gunnari kaups. Er þar öðrum eigi góðs von er slíkir fá eigi.“

„Hvað þarft þú margt um slíkt að tala? Miklu er drengilegra að fá honum bæði mat og hey er þig skortir hvortgi til,“ sagði Bergþóra.

Njáll mælti: „Þetta er dagsanna og skal eg birgja hann að nokkuru.“

Fór hann upp í Þórólfsfell og synir hans og bundu þar hey á fimmtán hesta en á fimm hestum höfðu þeir mat. Njáll kom til Hlíðarenda og kallaði út Gunnar. Hann fagnar þeim vel.

Njáll mælti: „Hér er hey og matur er eg vil gefa þér. Vil eg að þú leitir aldrei annarra en mín ef þú þarft nokkurs við.“

„Góðar eru gjafir þínar,“ segir Gunnar, „en meira þykir mér verð vinátta þín og sona þinna.“

Fór Njáll heim síðan. Síðan líður nú vorið.


Tilvísanir

Links