Njála, 048

From WikiSaga
Revision as of 09:38, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 48== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 48== Gunnar ríður til þings en að hans gisti fjölmenni mikið austan af Síðu...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 48

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 48

Gunnar ríður til þings en að hans gisti fjölmenni mikið austan af Síðu. Gunnar bauð að þeir gistu þar er þeir riðu af þingi. Njáll var á þingi og synir hans. Þingið er kyrrt.

Nú er þar til að taka að Hallgerður kemur að máli við Melkólf þræl: „Sendiför hefi eg hugað þér,“ segir hún, „þú skalt fara í Kirkjubæ.“

„Og hvað skal eg þangað?“ segir hann.

„Þú skalt stela þaðan mat á tvo hesta og hafa smjör og ost en þú skalt leggja eld í útibúrið og munu allir ætla að af vangeymslu hafi orðið en engi mun ætla er stolið hafi verið.“

Þrællinn mælti: „Vondur hefi eg verið en aldrei hefi eg þjófur verið.“

„Heyr á endemi,“ segir Hallgerður. „Þú gerir þig góðan þar sem þú hefir bæði verið þjófur og morðingi og skalt þú eigi þora annað en fara ella mun eg láta drepa þig.“

Hann þóttist vita að hún mundi svo gera ef hann færi eigi. Tók hann tvo hesta og lagði á lénur og fór í Kirkjubæ. Hundurinn gó eigi og kenndi hann og hljóp í móti honum. Síðan fór hann til útibúrs og klyfjaði þaðan tvo hesta af mat en brenndi búrið og drap hundinn. Hann fór upp með Rangá og slitnaði skóþvengur hans og tekur hann kníf og gerir að. Honum liggur eftir knífurinn og beltið. Hann fer þar til er hann kemur til Hlíðarenda. Þá saknar hann knífsins og þorir eigi aftur að fara, færir nú Hallgerði matinn. Hún lætur vel yfir.

Um morguninn er menn komu út í Kirkjubæ sáu menn þar skaða mikinn. Var þá sendur maður til þings að segja Otkatli. Hann varð vel við skaðann og kvað það valdið mundu hafa að eldhúsið var áfast útibúrinu og ætluðu það þá allir.

Nú ríða menn heim af þingi og riðu margir til Hlíðarenda. Hallgerður bar mat á borð og kom innar ostur og smjör. Gunnar vissi slíks matar þar ekki von og spurði Hallgerði hvaðan það kæmi.

„Þaðan sem þú mátt vel eta,“ segir hún, „enda er það ekki karla að annast um matreiðu.“

„Illa er þá ef eg er þjófsnautur“ og lýstur hana kinnhest.

Hún kvaðst þann hest muna skyldu og launa ef hún mætti. Gekk hún þá fram og hann með henni og var þá borið allt af borðinu en borið innar slátur og ætluðu allir að það mundi til hafa borið að þá mundi þykja fengið betur. Fara þingmenn nú í braut.


Tilvísanir

Links