Njála, 051

From WikiSaga
Revision as of 09:39, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 51== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 51== Gunnar reið til þings og allir Sigfússynir, Njáll og hans synir. Þeir geng...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 51

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 51

Gunnar reið til þings og allir Sigfússynir, Njáll og hans synir. Þeir gengu með Gunnari allir og var það mælt að engi flokkur mundi jafnharðsnúinn þeim.

Gunnar gekk einn dag til búðar Dalamanna. Hrútur var við búð og Höskuldur og fögnuðu þeir vel Gunnari. Gunnar segir þeim nú málavöxt á þessu.

„Hvað leggur Njáll til ráðs?“ segir Hrútur.

„Hann bað mig finna ykkur bræður og segja svo að eitt ráð mundi honum um það sýnast sem ykkur.“

„Það vill hann þá,“ segir Hrútur, „að eg kveði upp fyrir vensla sakir og skal svo vera. Þú skalt skora á hólm Gissuri hvíta ef þeir bjóða þér eigi sjálfdæmi en Kolskeggur Geiri goða. En fást munu menn til að ganga að þeim Otkatli og höfum vér nú lið svo mikið allir saman að þú mátt fram koma slíku sem þú vilt.“

Gunnar gekk heim til búðar og sagði Njáli.

Úlfur aurgoði varð vís þessar ráðagerðar og sagði Gissuri.

Gissur mælti til Otkels: „Hver lagði það til ráðs með þér að þú skyldir stefna Gunnari?“

„Skammkell sagði mér að það væri ráðagerð ykkur Geirs goða.“

„En hvar er mannfýla sú,“ segir Gissur, „er þetta hefir logið?“

„Hann liggur sjúkur heima að búð,“ segir Otkell.

„Þar er hann standi aldrei upp,“ segir Gissur. „Nú skulum vér allir ganga að finna Gunnar og bjóða sjálfdæmi og veit eg þó eigi hvort hann vill þau nú taka.“

Margir menn mæltu illt við Skammkel og lá hann sjúkur um allt þingið.

Þeir Gissur gengu til búðar Gunnars. Kennd var för þeirra og var sagt Gunnari inn í búðina. Þeir gengu út allir og fylktu. Gissur hvíti gekk fyrstur.

Síðan mælti hann: „Það er boð vort,“ segir Gissur, „að þú, Gunnar, dæmir þetta mál.“

„Fjarri mun það þá þínu ráði er mér var stefnt,“ segir Gunnar.

„Eigi réð eg því,“ segir Gissur, „og hvorgi okkar Geirs.“

„Þá muntu synja þess með skynsemd.“

„Hvers beiðist þú?“ segir Gissur.

„Þess að þú vinnir eið,“ segir Gunnar.

„Það vil eg gera,“ segir Gissur, „ef þú vilt þiggja sjálfdæmið.“

„Það bauð eg fyrir stundu,“ segir Gunnar, „en þykir mér um meira að dæma.“

Njáll mælti: „Eigi er að níta sjálfdæminu, þess meiri sæmdar er fyrir vert, er meira er málið.“

Gunnar mælti: „Gera mun eg til skaps vina minna að dæma málið. En það ræð eg Otkatli að gera ekki til saka við mig síðan.“

Þá var sent eftir Höskuldi og Hrúti og komu þeir þangað til. Vann þá Gissur eið og Geir goði en Gunnar gerði gerðina og réðst við engan mann um og síðan sagði hann upp gerðina.

„Það er gerð mín,“ sagði hann, „að eg geri verð húss og matar þess er inni var. En fyrir þrælinn vil eg þér ekki bæta þar er þú leyndir annmarka á honum. En eg geri hann til handa þér því að þar eru eyru sæmst sem óxu. Met eg svo sem þér hafið stefnt mér til háðungar og fyrir því dæmi eg eigi minna til handa mér en vert er þetta fé, húsið og það er inni brann. En ef yður þykir betra að vér séum ósáttir þá læt eg þess enn kost en gert hefi eg þá enn eitt ráð fyrir mér og skal það þá fram koma.“

Gissur segir: „Það viljum vér að þú gjaldir eigi Otkatli en þess beiðum vér í mót að þú sért vinur Otkels.“

„Það skal verða aldrei meðan eg lifi og mun hann hafa vináttu Skammkels. Þeirri hefir hann lengi hlítt.“

Gissur segir: „Þó viljum vér nú lúka málinu þótt þú ráðir einn skildaganum.“

Voru þá handsalaðar þessar sættir allar.

Gunnar mælti til Otkels: „Ráðlegra er þér að fara til frænda þinna. En ef þú vilt vera þar í sveit þá gerðu ekki til saka við mig.“

Gissur mælti: „Þetta er heilræði og skal hann svo gera.“

Gunnar hafði mikla sæmd af málinu. Riðu menn síðan heim af þingi. Situr nú Gunnar í búi sínu og er nú kyrrt um hríð.



Tilvísanir

Links