Njála, 061

From WikiSaga
Revision as of 15:10, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 61== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 61== Þeir ríða þrír saman, Gunnar og bræður hans. Gunnar hafði atgeirinn og ...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 61

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 61

Þeir ríða þrír saman, Gunnar og bræður hans. Gunnar hafði atgeirinn og sverðið Ölvisnaut en Kolskeggur hafði saxið. Hjörtur hafði og alvæpni. Riðu þeir nú í Tungu. Ásgrímur tók vel við þeim og voru þeir þar nokkura hríð. Þá lýstu þeir yfir því að þeir ætluðu þá heim að fara. Ásgrímur gaf þeim góðar gjafir og bauð að ríða með þeim austur. Gunnar kvað engis mundu við þurfa og fór hann eigi.

Sigurður svínhöfði hét maður. Hann kom undir Þríhyrning. Hann hafði heitið að halda njósnum um ferðir Gunnars. Hann sagði þeim nú til ferða hans og kvað ekki mundu verða vænna en svo „er hann er við hinn þriðja mann.“

„Hversu marga munum vér þurfa menn,“ segir Starkaður, „í fyrirsát?“

„Rýrt mun verða fyrir honum smámennið,“ segir hann, „og eigi er ráð að hafa færri en þrjá tigu manna.“

„Hvar skulum vér fyrir sitja?“

„Við Knafahóla,“ segir hann, „þar sér eigi fyrr en að er komið.“

„Far þú í Sandgil og seg Agli að þeir búist þaðan fimmtán en vér munum koma héðan aðrir fimmtán til Knafahóla.“

Þorgeir mælti til Hildigunnar: „Þessi hönd skal þér sýna Gunnar dauðan í kveld.“

„En eg get,“ segir hún, „að þú berir lágt höfuðið af ykkrum fundi.“

Þeir fara fjórir feðgar undan Þríhyrningi og ellefu menn aðrir. Fóru þeir til Knafahóla og biðu þar.

Sigurður kom í Sandgil og mælti: „Eg er sendur hingað af Starkaði og sonum hans að segja þér, Egill, að þér feðgar farið til Knafahóla að sitja fyrir Gunnari.“

„Hversu margir skyldum vér fara?“ segir Egill.

„Fimmtán með mér.“

Kolur mælti: „Nú ætla eg mér að reyna við Kolskegg.“

„Mjög þykir mér þú ætla þér,“ segir Sigurður.

Egill bað Austmenn sína fara.

Þeir kváðust engar sakir eiga við Gunnar „enda þarf hér mikils við,“ segir Þórir, „er fjöldi manns skal fara að þremur mönnum.“

Gekk þá Egill í brott og var reiður.

Húsfreyja mælti þá til Austmannsins: „Illa hefir Guðrún dóttir mín brotið odd af oflæti sínu og legið hjá þér er þú skalt eigi þora að fylgja bónda þínum og mági og munt þú vera ragur maður,“ segir hún.

„Fara mun eg með bónda þínum og mun hvorgi okkar aftur koma.“

Síðan gekk hann til Þorgríms félaga síns og mælti: „Tak þú nú við kistulyklum mínum því að eg mun þeim eigi lúka oftar. Bið eg að þú eignist slíkt af fé okkru sem þú vilt en far utan og ætla ekki til hefnda eftir mig. En ef þú ferð eigi utan þá verður það þinn bani.“

Austmaðurinn réðst í flokk með þeim.


Tilvísanir

Links