Njála, 062

From WikiSaga
Revision as of 15:10, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 62== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 62== Nú er þar til máls að taka að Gunnar ríður austur yfir Þjórsá. En er ...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 62

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 62

Nú er þar til máls að taka að Gunnar ríður austur yfir Þjórsá. En er hann kom skammt frá ánni syfjaði hann mjög og bað hann þá æja þar. Þeir gerðu svo. Hann sofnaði fast og lét illa í svefni.

Kolskeggur mælti: „Dreymir Gunnar nú.“

Hjörtur mælti: „Vekja vildi eg hann.“

„Eigi skal það,“ segir Kolskeggur, „og skal hann njóta draums síns.“

Gunnar lá mjög langa hríð og varp af sér skildinum og var honum varmt mjög.

Kolskeggur mælti: „Hvað hefir þig dreymt, frændi?“

„Það hefir mig dreymt að eg mundi eigi riðið hafa úr Tungu svo fámennur ef mig hefði þá þetta dreymt.“

„Seg oss draum þinn.“

Gunnar kvað:

19. Þykkjumst, flýtir flokka,

fámennur riðinn, sennu,

víst brá eg hrafns á hausti

hungri, brott úr Tungu,

því að, eldveitir öldu,

eg fýsumst það lýsa,

margur etur valur frá vargi

villur, dreymdi mig illa.


„Það dreymdi mig að eg þóttist ríða fram hjá Knafahólum. Þar þóttist eg sjá varga marga og sóttu þeir allir að mér en eg sneri undan og fram að Rangá. Þá þótti mér þeir sækja að öllum megin en eg varðist. Eg skaut alla þá er fremstir voru þar til er þeir gengu svo að mér að eg mátti eigi boganum við koma. Tók eg þá sverðið og vó eg með annarri hendi en lagði með atgeirinum annarri hendi. Hlífði eg mér þá ekki og þóttist eg þá eigi vita hvað mér hlífði. Drap eg þá marga varga og þú með mér, Kolskeggur, en Hjört þótti mér þeir hafa undir og slíta á honum brjóstið og hafði einn hjartað í munni sér. En eg þóttist verða svo reiður að eg hjó varginn í sundur fyrir aftan bóguna og eftir það þóttu mér stökkva vargarnir. Nú er það ráð mitt, Hjörtur frændi, að þú ríðir vestur aftur í Tungu.“

„Eigi vil eg það,“ segir Hjörtur. „Þótt eg viti vísan bana minn þá vil eg þér fylgja.“

Síðan riðu þeir og komu austur hjá Knafahólum.

Kolskeggur mælti: „Sérðu, frændi, mörg spjót koma upp hjá hólunum og menn með vopnum?“

„Ekki kemur mér það að óvörum,“ segir Gunnar, „að draumur minn sannist.“

„Hvað skal nú til ráða?“ segir Kolskeggur. „Eg get þess að þú viljir eigi renna undan þeim.“

„Ekki skulu þeir að því spotta,“ segir Gunnar, „en ríða munum vér fram að Rangá í nesið. Þar er vígi nokkuð.“

Ríða þeir nú fram í nesið og bjuggust þar við.

Kolur mælti er þeir riðu hjá fram: „Hvort skal nú renna, Gunnar?“

Kolskeggur mælti: „Seg þú svo fremi frá því er þessi dagur er allur.“



Tilvísanir

Links