Njála, 078

From WikiSaga
Revision as of 15:13, 24 June 2014 by Olga (talk | contribs) (Created page with "{{Njála_TOC}} ==Chapter 78== '''TITLE.''' ENSKA ==References== <references /> ==Kafli 78== Njáll kunni illa láti Gunnars og svo Sigfússynir. Þeir spurðu hvort Njál...")
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigationJump to search


Chapter 78

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 78

Njáll kunni illa láti Gunnars og svo Sigfússynir. Þeir spurðu hvort Njáli þætti nokkuð eiga að lýsa vígsök Gunnars eða búa mál til. Hann kvað það ekki mega er maður var sekur orðinn og kvað heldur verða að veita þeim vegskarð í því að drepa menn nokkura í hefnd eftir hann.

Þeir urpu haug eftir Gunnar og létu hann sitja upp í hauginum. Rannveig vildi eigi að atgeirinn færi í hauginn og kvað þann einn skyldu á honum taka er hefna vildi Gunnars. Tók því engi á atgeirinum. Hún var svo hörð við Hallgerði að henni hélt við að hún mundi drepa hana og kvað hana valdið hafa vígi sonar síns. Stökk þá Hallgerður til Grjótár og Grani son hennar. Var þá gert féskipti með þeim. Skyldi Högni hafa land að Hlíðarenda og bú á en Grani skyldi hafa leigulönd.

Sá atburður varð að Hlíðarenda að smalamaður og griðkona ráku fé hjá haugi Gunnars. Þeim þótti hann vera kátur og kveða í hauginum. Fóru þau heim og sögðu Rannveigu móður Gunnars atburðinn en hún bað þau segja Njáli. Fóru þau þá til Bergþórshvols og sögðu Njáli en hann lét segja sér þrem sinnum. Eftir það talaði hann lengi hljótt við Skarphéðin.

Hann tók vopn sín og fer með þeim til Hlíðarenda. Þau Högni og Rannveig tóku við honum allvel og urðu honum fegin mjög. Rannveig bað að hann væri þar lengi. Hann hét því. Þeir Högni gengu út og inn jafnan. Högni var maður vasklegur og vel að sér ger og tortryggur og þorðu þau fyrir því eigi að segja honum fyrirburðinn.

Þeir Skarphéðinn og Högni voru úti hjá haugi Gunnars suður frá. Tunglskin var bjart en stundum dró fyrir. Þeim sýndist haugurinn opinn og hafði Gunnar snúist í hauginum og sá í móti tunglinu. Þeir þóttust sjá fjögur ljós í hauginum brenna og bar hvergi skugga á. Þeir sáu að Gunnar var kátlegur og með gleðibragði miklu. Hann kvað vísu og svo hátt að þó mátti heyra gjörla þótt þeir væru firr:


25. Mælti döggla deilir,

dáðum rakkur, sá er háði

bjartur með bestu hjarta

benrögn, faðir Högna:

Heldur kvaðst hjálmi faldinn

hjörþilju sjá vilja

veitidraug en vægja,

val-Freyju stafur, deyja

og val-Freyju stafur deyja.


Síðan laukst aftur haugurinn.

„Mundir þú trúa fyrirburð þessum ef Njáll segði þér eða eg?“ segir Skarphéðinn.“

„Trúa mundi eg,“ segir hann, „ef Njáll segði því að það er sagt að hann ljúgi aldrei.“

„Mikið er um fyrirburði slíka,“ segir Skarphéðinn. „Hann sjálfur vitrast okkur og vildi heldur deyja en vægja fyrir óvinum sínum og kenndi hann okkur þau ráð.“

„Engu mun eg til leiðar koma,“ segir Högni, „nema þú viljir mér að veita.“

„Nú skal eg það muna hversu Gunnari fór eftir víg Sigmundar frænda yðvars. Skal eg nú veita yður slíkt er eg má. Hét faðir minn því Gunnari þar er þú ættir hlut að eða móðir hans.“

Gengu þeir síðan heim til Hlíðarenda.


Tilvísanir

Links