Njála, 121

From WikiSaga
Revision as of 08:20, 25 June 2014 by Olga (talk | contribs)
Jump to navigationJump to search


Chapter 121

TITLE.

ENSKA

References


Kafli 121

Annan dag eftir fundust þeir Ásgrímur og Gissur hvíti, Hjalti Skeggjason og Einar Þveræingur. Þar var þá og Mörður Valgarðsson. Hann hafði þá látið af höndum sökina og selt í hendur Sigfússonum.

Þá mælti Ásgrímur: „Þig kveð eg að þessu fyrstan, Gissur hvíti, og Hjalti og Einar, að eg vil segja yður í hvert efni komið er málum þessum. Yður mun það kunnigt að Mörður hefir sótt málið. En svo er við vaxið að Mörður hefir verið að vígi Höskulds og sært hann því sári er engi var til nefndur. Sýnist mér sem þetta mál muni ónýtt vera fyrir laga sakir.“

„Þá viljum vér það fram bera þegar,“ segir Hjalti.

Þórhallur Ásgrímsson mælti: „Það er ekki ráð að eigi fari þetta leynt allt þar til er dómar fara út.“

„Hverju skiptir það?“ segir Hjalti.

Þórhallur mælti: „Ef þeir vita nú það þegar að rangt hafi verið til búið málið þá mega þeir svo bjarga sökinni að senda mann heim af þingi og stefna heiman til þings en kveðja búa á þingi og er þá rétt sótt málið.“

„Vitur maður ertu, Þórhallur,“ segja þeir, „og skal þín ráð hafa.“

Eftir þetta gekk hver til sinnar búðar.

Sigfússynir lýstu sökum að Lögbergi og spurðu að þingfesti og heimilisfangi en föstunóttina skyldu fara út dómar til sóknar. Er nú kyrrt þingið þar til. Margir leituðu um sættir með þeim og var Flosi erfiður en aðrir þó miklu orðfleiri og þótti óvænlega horfa.

Nú kemur að því sem dómar skyldu út fara föstukveldið. Gekk þá allur þingheimur til dóma. Flosi stóð sunnan að Rangæingadómi og lið hans. Þar var með honum Hallur af Síðu og Runólfur úr Dal son Úlfs aurgoða og aðrir þeir sem Flosa höfðu liði heitið. En norðan að Rangæingadómi stóðu þeir Ásgrímur Elliða-Grímsson og Gissur hvíti, Hjalti Skeggjason og Einar Þveræingur en Njálssynir voru heima við búð og Kári og Þorleifur krákur og Þorgeir skorargeir og Þorgrímur mikli. Þeir sátu allir með vopnum og var þeirra flokkur óárennilegur.

Njáll hafði beðið dómendur að ganga í dóminn. Sigfússynir sækja nú málið. Þeir nefndu votta og buðu Njálssonum að hlýða til eiðspjalls síns. Síðan unnu þeir eið. Þá sögðu þeir fram sök. Þá létu þeir fram bera lýsingarvætti. Þá buðu þeir búum í setu. Þá buðu þeir til ruðningar um kviðinn.

Þá stóð upp Þórhallur Ásgrímsson og nefndi votta og varði lýriti kviðburðinn og fann það til að sá hafði lýst sökinni er sannir lagalestir voru á og sjálfur var útlagi.

„Til hvers mælir þú þetta?“ segir Flosi.

Þórhallur mælti: „Mörður Valgarðsson fór til vígs Höskulds með Njálssonum og særði hann því sári er engi maður var til nefndur þá er vottar voru nefndir að benjum. Megið þér eigi í móti mæla að ónýtt sé málið.“



Tilvísanir

Links